Gildir frá 10. Apríl 2024


Viðskiptaskilmálar Kardio1.          Almennt


1.1.      Þessir skilmálar gilda um viðskiptasamband á milli Kardio, sem er þjónusta frá Memento ehf., kt. 700114-0580, Bolholti 4, 105 Reykjavík („Kardio“) og viðskiptavinar Kardio. Skilmálarnir hafa að geyma almenn ákvæði og skyldur beggja aðila.


1.2.      Um samningssamband notanda og Kardio gilda, auk þessarra skilmála, almennir skilmálar fyrirtækja vegna viðskipta við Kviku banka hf. („Almennir skilmálar Kviku“) sem eru aðgengilegir  á vefsvæði Kviku banka hf. („Kvika“), www.kvika.is/skilmalar


1.3.      Skilmálar þessir gilda um þá þjónustu sem Kardio veitir. 


1.4.      Með því að samþykkja skilmála þessa lýsir notandi því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt efni þessara skilmála.


1.5 Uppfærðir skilmálar eru birtir á vef Kardio www.kardio.is/vidskiptaskilmalar 
2.          Stofnun viðskipta 


2.1.     Viðskiptavinur getur stofnað til viðskipta við Kardio á vef Kardio www.kardio/nyskraning að undangengnu umsóknarferli um Kardio-kortaútgáfu hjá Kviku www.kvika.is/kardio


2.1.      Til að stofna til viðskipta við Kardio þarf fyrirtækið að hafa áður stofnað til viðskipta við Kviku Hf. en Kvika er útgáfuaðili fyrirtækjagreiðslukorta fyrir hönd Kardio. Við upphaf viðskiptasambands skal viðskiptavinur undirgangast áreiðanleikakönnun sem hluti af umsóknarferli Kviku og Kardio. Kviku ber skylda til að kanna áreiðanleika viðskiptavina sinna skv. lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.


2.3. Við stofnun viðskipta við Kardio er viðskiptavini skylt að vera með tilskylin leyfi til að gangast til skuldbindinga fyrir hönd lögaðila. Viðskiptavin er skylt að gefa upp réttar upplýsingar sem hann og fyrirtækið er sannarlega skráð fyrir. 


2.4. Við stofnun til viðskipta við Kardio er stofnaður fyrirtækjaaðgangur í stjórnborði ásamt aðgengi fyrir starfsmenn að Kardio stjórnborði og Kardio appi eftir þörfum.


2.5. Sérhverjum starfsmanni er skylt að gefa upp rétt símanúmer, kennitölu og netfang sem hann er sannarlega skráður fyrir við stofnun notanda og þarf starfsmaður jafnframt að samþykkja almenna skilmála Kardio og Kviku.


2.6 Sérhver viðskiptavinur og notandi ábyrgist að uppfæra þær upplýsingar sem um hann gilda þannig að þær séu á hverjum tíma réttar og fullnægjandi. 


2.7. Kardio áskilur sér rétt til að krefjast frekari upplýsinga af viðskiptavinum og notendum ef Kardio telur ástæðu til að ætla að verið sé að nýta þjónustuna í andstöðu við skilmála Kardio, almenna skilmála Kviku eða landslög. Jafnframt hefur Kardio rétt til að óska þeirra upplýsinga sem Kardio telur nauðsynlegar til að tryggja öryggi þjónustunnar, öryggi viðskiptavina og/eða öryggi utanaðkomandi aðila. Upplýsingaöflun getur t.d. falist í fyrirspurnum til notanda eða kröfu um staðfestingar frá honum vegna þeirra upplýsinga sem hann hefur gefið eða aðgerða sem hann hefur framkvæmt.


2.8 Kardio er heimilt að hafna umsókn einstakra viðskiptavina nema lög mæli fyrir um annað. Kardio ber almennt ekki skylda til að rökstyðja ákvörðun sína um synjun nema að lög mæli svo fyrir. 
3.          Notkun og ábyrgðir 


3.1.      Öll notkun Kardio er á ábyrgð viðskiptavinar og má hann undir engum kringumstæðum deila upplýsingum um öryggisnúmer, kortaupplýsingar eða veita öðrum aðila aðrar viðkvæmar upplýsingar. 


3.2.     Í viðskiptum með greiðslukort notar viðskiptavinur persónubundna öryggisþætti til auðkenningar og til staðfestingar á greiðslum og öðrum viðskiptum í samræmi við öryggiskröfur Kardio á hverjum tíma. Með persónubundnum öryggisþáttum er átt við hvers konar auðkenningu sem bundin er við viðkomandi viðskiptavin eingöngu og hann einn getur notað til að sanna á sér deili, svo sem rafræn skilríki eða notandanafn og öryggisnúmer sem viðskiptavinur velur sér eða fær úthlutað við stofnun notandaaðgangs.


3.3.     Viðskiptavinur getur ávallt breytt öryggisnúmeri sínu í Kardio appinu eða í stjórnborði. Kardio áskilur sér rétt til að breyta öryggiskröfum sínum varðandi auðkenningu og persónubundna öryggisþætti án fyrirvara.


3.4.     Viðskiptavinur ábyrgist að varðveita öryggisupplýsingar og upplýsingar um persónubundna öryggisþætti með tryggum hætti og ber ábyrgð á því að þær berist ekki í hendur óviðkomandi aðila eða séu aðgengilegar öðrum. Viðskiptavinur ber ábyrgð á öllum aðgerðum, þ.á.m. fjárhagslegum færslum sem staðfestar eru með persónubundnum öryggisþáttum. Notkun persónubundinna öryggisþátta jafngildir undirskrift viðskiptavinar. Viðskiptavini ber að tilkynna Kardio án tafar ef hann hefur ástæðu til að ætla að óviðkomandi aðili hafi komist yfir upplýsingar um persónubundna öryggisþætti sína. Skal hann breyta þeim eins fljótt og við verður komið. Varðveiti viðskiptavinur persónubundna öryggisþætti sína ekki í samræmi við framangreint telst það vera stórfellt gáleysi af hans hálfu. Kardio getur lokað á notkun rafrænna skilríkja eða leyninúmers og gert viðskiptavini að skipta út sömu þáttum ef grunur leikur á misnotkun eða villuhættu.

 

3.5. Ef notandi Kardio verður var við óeðlilega notkun eða greiðslur af greiðslukorti sínu sem hann telur sig ekki hafa framkvæmt, týnir símanum sínum eða grunar að óviðkomandi hafi vitneskju um aðgangsupplýsingar að Kardio þá er það á ábyrgð notanda að loka tafarlaust fyrir aðgang sinn að Kardio. Nálgast má nánari útskýringar á vefsíðu Kardio, www.kardio.is/neydarlokun. Kardio áskilur sér rétt til að loka fyrir aðgang notanda að Kardio ef grunur um misnotkun eða ranga notkun af einhverju tagi kemur upp, að einhliða mati Kardio.


3.6.      Verði Kardio fyrir tjóni vegna brota notanda gegn skilmálum þessum eða hvers kyns ásetnings- eða gáleysisverka notanda í tengslum við notkun á Kardio skal notandi bæta Kardio það tjón samkvæmt almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga. Undir ákvæði þetta falla einnig hvers kyns kröfur þriðja aðila á hendur Kardio vegna notkunar eða umgengni notanda við Þjónustuna á grundvelli samnings þessa.


3.7.      Hvorki Kardio né notandi skulu teljast brotlegir gegn skilmálum þessum eða ábyrgir gagnvart hinum ef orsök er að rekja til atvika sem viðkomandi aðili hefur ekki á valdi sínu (óviðráðanleg atvik). Óviðráðanleg atvik í þessum skilningi eru m.a. en ekki einskorðuð við náttúruhamfarir, styrjaldir eða almennar óeirðir, aðgerðir opinberra aðila sem gera efndir ómögulegar, vinnudeilur o.þ.h. Hafi efndir verið útilokaðar af framangreindum sökum í 6 vikur eða lengur er hvorum aðila um sig heimilt að slíta samningi þessum með tilkynningu til gagnaðila sem gefin skal með 7 daga fyrirvara.
4.          Kardio kort og snertilausar greiðslur


4.1 Kvika er útgáfuaðili fyrirtækjagreiðslukorta fyrir hönd Kardio Sjá skilmála um útgáfu greiðslukorta hjá Kviku, www.kvika.is/skilmalar_greiðslukort


4.2 Útgefanda er nauðsynlegt og ber lagaskylda til að vinna persónuupplýsingar til að gegna hlutverki sínu sem fjármálafyrirtæki og greiðslumiðlun og til að tryggja öryggi í fjármála- og greiðsluþjónustu. Allar persónuupplýsingar sem útgefandi móttekur og meðhöndlar eru unnar í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og persónuverndarstefnu Kviku. Persónuupplýsingar eru notaðar við mat á umsóknum, útgáfu korta og lánaheimilda og við aðra hefðbundna starfsemi útgefanda. Útgefandi vinnur upplýsingar um korthafa, handhafa korta og ábyrgðarmenn. Persónuupplýsingar verða til í kortakerfum útgefanda. Með samþykki skilmála þessara veitir korthafi útgefanda heimild til að vinna persónuupplýsingar sem verða til við notkun kortsins í greiðslumiðlunarkerfum. Upplýsingar sem hér um ræðir eru m.a. kennitala, símanúmer, heimilisfang og aðrar þær upplýsingar sem aðilar hafa veitt útgefanda með útfyllingu eyðublaða og forma útgefanda.


4.3 Korthafi hefur einn heimild til að nota kortin sín. Með korti í skilmálum þessum er átt við virkni með sýndarnúmeri (e. token) sem Kardio lætur af hendi til korthafa og er aðgengilegt í gegnum farsíma eða öðrum snjalltækjum.


4.4. Unnt er að tengja kortið við rafrænt veski (e. wallet) til þess að virkja snertilausar greiðslur með farsíma eða öðru snjalltæki sem gerir korthafa kleift að greiða með tækinu á greiðslustöðvum (posum) sem útbúnir eru til þess.


4.5 Kort má nýta á eftirfarandi hátt


 • sem alþjóðlegt greiðslukort til kaupa á vöru eða þjónustu

 • tengt við farsíma eða önnur snjalltæki til kaupa á vöru eða þjónustu með snertilausum greiðslum 

Kort skal ekki nýta á eftirfarandi hátt

 • sem hraðbankakort til úttektar og innlagnar á reiðufé í hraðbönkum

 • sem bankakort til úttektar eða greiðslu á banka/sparisjóði

 • sem úttektarkort í millifærsluþjónustum (d. Aur)


4.6 Notandi þjónstunnar og korthafi viðkomandi greiðslukorts/a skal ávallt vera sami aðili. Aðgangur korthafa að veskjum (Apple/Google Pay) skal aðeins vera notaður af honum sjálfum og er notanda óheimilt að deila aðgangsupplýsingum eða kortum með þriðja aðila eða á annan hátt veita þriðja aðila aðgang að persónulegum aðgangi sínum að þeim veskjum sem þjónustan styður við. Kort skulu aðeins vera sett upp í veskjum á snjalltækjum sem er í eigu og undir umráðum notanda  og eyða tengdum greiðslukortum út af greiðslulausn/smáforriti þjónustuaðila, ef snjalltæki er lánað, selt eða ef viðskiptamaður hættir að nota það. Ekki skal, setja Kardio appið upp á snjalltæki þar sem átt hefur verið við stýrikerfið, og eða hætta notkun þjónustunnar og eyða upplýsingum (þ.á.m. greiðslukortum) tengdum henni út af snjalltæki hafi öryggi þess verið ógnað með einhverjum hætti, svo sem með uppsetningu óöruggra smáforrita eða gruns um óviðkomandi aðgang að snjalltækinu með einverju móti.

Notandi skal tryggja leynd aðgangsupplýsinga, kortaupplýsinga og rafrænna skilríkja, og ber ábyrgð á hvers kyns tjóni sem kann að hljótast af því að fyrrgreindar upplýsingar rati til þriðja aðila, hvort sem það er með vitneskju notanda eður ei. Notandi sem auðkennir sig með réttu öryggisnúmeri er álitinn réttur eigandi viðkomandi notendaaðgangs að Kardio og hefur einungis sá aðili heimild til að framkvæma aðgerðir á þeim notendaaðgangi. Notandi ber ávallt fulla ábyrgð á öllum aðgerðum sem staðfestar hafa verið með framangreindum hætti í Kardio


4.7 Með persónubundnum öryggisþáttum í skilmálum þessum er átt við hvers konar auðkenningu sem bundinn er við viðkomandi einstakling eingöngu og hann einn getur notað til að sanna á sér deili í viðskiptum samkvæmt skilmálum þessu, svo sem rafræn skilríki, öryggisnúmer, andlitsauðkenningu og fingrafar.


4.8 Kortaupplýsingar eru verðmæti sem skal gæta eins og peninga. Sérhver ágreiningur eða tjón vegna kaupa á vöru eða þjónustu sem greidd er með kortinu er útgefanda þess algerlega óviðkomandi og án ábyrgðar fyrir hann.


4.9 Kardio áskilur sér rétt til að synja um heimild fyrir greiðslu með kortum. Algengustu ástæður þess að Kardio synjar greiðslu eru eftirfarandi:


 • Korti hefur verið lokað eða fryst

 • Korti hefur verið tilkynnt stolið

 • Fjárhæð greiðslu fer yfir ráðstöfunarfjárhæð

 • Staðfesting með persónubundnum öryggisþáttum hefur verið röng

 • Gildistími kortsins er útrunninn

 • Lög kveða á um annað

4.10 Sé fyrir hendi rökstuddur grunur um óheimila eða sviksamlega notkun kortsins áskilur Kardio sér rétt til að synja um úttektarheimild og loka korti. Í því tilviki er korthafa gert viðvart í framhaldinu án tafar. Reynist sá grunur ekki á rökum reistur er opnað fyrir notkun kortsins að nýju.

4.11 Korthafi getur nálgast reikningsyfirlit yfir úttektir og notkun korta í Kardio appinu, í Kardio stjórnborði og í reikningsyfirliti sent frá Kviku. Á yfirlitinu kemur fram nafn seljenda, þar sem kortið var notað, ásamt dagsetningu og upphæð ásamt öðrum ítarupplýsingum. Ef um erlend viðskipti er að ræða kemur fram upphæð þess gjaldmiðils sem verslað var fyrir og viðmiðunargengi.

4.12 Úttektir korthafa í erlendri mynt eru umreiknaðar í íslenskar krónur á því gengi sem í gildi er á þeim degi er færslan kemur inn í kortakerfi útgefanda sem úttekt. Upplýsingar um gengi er að finna á heimasíðu Kviku: http://www.kvika.is. Notkun korts í gjaldeyrisviðskiptum er háð upplýsingaskyldu til Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum með heimild í þeim lögum.

4.13 Skiladagur færslu frá söluaðila til færsluhirðis ræður því, til hvaða kortatímabils úttekt tilheyrir.5.          Glötuð kort, lokanir og afturkallanir


5.1 Verði korthafi var við óheimilar greiðslur eða vakni grunur um misnotkun kortsins ber honum að breyta persónubundnum öryggisþáttum, s.s. læsingu á snjallsímanum með viðeigandi öryggisstillingum, t.d. með nýju öryggisnúmeri og frysta kortið í appinu og tilkynna Kardio um slíkt án tafar með því að hafa samband við þjónustuver Kviku í síma 585-6565 eða neyðarþjónustu Enfuce í síma 222-2222 utan hefðbundins þjónustutíma Kviku. Korthafi á rétt á að fá staðfestingu á að hann hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni. Um leið og tilkynning hefur verið móttekin ber þeim sem tók á móti tilkynningunni að loka kortinu og koma í veg fyrir frekari notkun þess og/eða misnotkun. Sá sem móttekur tilkynningu korthafa, hvort heldur sem er Kvika eða umboðsaðili VISA, ber að geyma slíka tilkynningu í 18 mánuði.


5.2 Kardio getur afturkallað kortið fyrirvaralaust komi til misnotkunar á því eða brota korthafa á reglum og skilmálum sem um kortið gilda, að mati útgefanda eða sé um vanskil hjá korthafa að ræða.


5.3 Kardio hefur heimild til þess að skrá öll afturkölluð kort og miðla þeim upplýsingum til seljenda vöru og þjónustu. 


5.4. Korthafa er óheimilt að nota kortið eftir að gildistími þess rennur út eða hefur verið ógilt. Misnotkun kortsins varðar við lög sbr. m.a. 249 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.6.          Verðskrá og skuldfærslur


6.1.      Aðgangur að Kardio fylgir verðskrá hverju sinni sem er aðgengileg á www.kardio.is/verdskra . Breytingar á verðskrá til hækkunar eru tilkynntar með 30 daga fyrirvara en lækkanir geta tekið gildi strax. Geri viðskiptavinur ekki athugasemdir við breytingar á verðskrá fyrir gildistöku þeirra telst hann hafa samþykkt þær. Kardio sendir kröfu vegna gjalda í heimabanka fyrirtækis eða skuldfærir af korti sem er skráð fyrir Kardio áskriftinni.


6.2 Kardio er heimilt að skuldfæra gjöld og kostnað á korti viðskiptavinar hjá Kardio og skulu skuldfærslur koma fram á reikningsyfirliti viðskiptavinar. Kveði aðrir skilmálar eða samningar Kardio við viðskiptavini á um gjaldtöku skulu þeir samningar gilda framar verðskrá Kardio.


6.3 Verðskrá vegna kortanotkunar má finna á vefsíðu Kviku www.kvika.is/kardio_verdskra

Kortatímabil Kardio fyrirtækjakorta er 27.-26. hvers mánaðar.


6.4 Reikningur vegna kortanotkunar fyrirtækis hjá Kardio er sendur út af Kviku banka sem krafa í byrjun hvers mánaðar og birtist krafan í öllum heimabönkum íslenskra banka og sparisjóða.
7.          Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga


7.1. Kardio er ábyrgðaraðili vegna vinnslu gagna, eins og skilgreint er í lögum um persónuvernd og reglugerð Evrópusambandsins GDPR.


7.2 Kardio ber skylda lögum samkvæmt að gæta að öryggi þeirra persónuupplýsinga sem Kardio vinnur með. Þeirri skyldu gegnir Kardio með því t.d. að setja sér persónuverndar- og öryggisstefnu, meta áhættu sem steðjar að viðkomandi vinnslu, til dæmis hættu á að óviðkomandi fái aðgang að upplýsingunum, þær skemmist eða verði eytt og að viðhafa öryggisráðstafanir til að stemma stigu við slíkri áhættu.


7.3 Megintilgangur með vinnslu á persónuupplýsingum er að veita viðskiptavinum þá þjónustu sem óskað er eftir. Heimild til vinnslu persónuupplýsinga getur m.a. verið vegna framkvæmdar samnings, lagaskyldna sem hvíla á Kardio og vegna lögmætra hagsmuna félagsins.


7.4 Einstaklingur getur fengið aðgang að persónuupplýsingum sínum og við ákveðnar aðstæður farið fram á að þær séu leiðréttara þeim eytt, vinnsla þeirra takmörkuð, andmælt söfnun og vinnslu þeirra og óskað eftir flutningi eigin gagna til annars aðila. Þá hefur einstaklingur rétt á að leggja fram kvörtun til Persónuverndar. Einstaklingur á rétt á því að afturkalla samþykki sitt hvenær sem er ef heimild til vinnslunnar byggir einungis á samþykki en ekki lagakröfum.


7.5 Persónuupplýsingar þær sem safnast um korthafa í tengslum við umsókn um kort verða skráðar í tölvukerfi útgefanda. 


7.6 Allar upplýsingar um kortareikninga og notkun korta eru vistaðar í tölvukerfum útgefanda. Dulkóðaðar upplýsingar um færslur á korti korthafa eru sendar alþjóðlegum kortasamsteypum, þ.e. upplýsingar um kortanúmer, hvenær færsla er gerð, fjárhæð færslu og hver er starfsemi seljanda.


7.7 Kardio  er heimilt lögum samkvæmt að halda utan um og vinna með upplýsingarnar með rafrænum hætti. Vinnsla getur t.d. verið nauðsynleg við gerð viðskiptasamninga, til að þjóna þeim á gildistíma þeirra og í því skyni að setja fram og birta upplýsingar í snjalltækjum. Vinnsla persónuupplýsinga getur einnig verið notuð sem grundvöllur fjármálaráðgjafar og greiningar viðskiptavina.

7.8 Kardio kann að nota persónuupplýsingar í markaðslegum tilgangi, þ.m.t. til að þróa nýjar þjónustuleiðir og viðskiptalausnir sem beint er til ákveðins hóps viðtakenda á grunni persónuupplýsinga. Kardio getur haft samskipti í þessu skyni við viðskiptavini í gegnum tölvupóst, Kardio appið, Kardio stjórnborðið eða önnur rafræn skilaboð. Kardio notar samskonar samskiptaleiðir til að meta gæði þjónustu sem Kardio veitir. Viðskiptavinir Kardio geta óskað eftir því að notkun persónugreinanlegra upplýsinga eða sending tölvupósts í markaðslegum tilgangi fari ekki fram.

7.9 Flokkun persónuupplýsinga, svo sem vegna fjármálalegra færslna sem viðskiptavinur hefur aðgang að í gegnum snjalltækjalausnir, má setja fram gagnvart viðskiptavini með hverjum þeim hætti sem eykur notkunargildi þeirra og gagnsæi eða til að uppfylla þá þjónustuþætti sem í boði eru á hverjum tíma, enda sé öryggi upplýsinganna tryggt með fullnægjandi hætti eftir sem áður.

7.10 Það kann að vera að upplýsingunum sé deilt með þriðja aðila t.d. til eftirlits- eða til þjónustuaðila en fyllsta öryggis og trúnaðar er gætt við slíka miðlun.

7.11 Vinnsla og geymsla persónuupplýsinga skal vera í samræmi við það sem nauðsynlegt er til starfrækslu greiðslumiðlunar. Þá getur vinnsla persónuupplýsinga verið nauðsynleg við rannsóknir ef grunsemdir vakna um peningaþvætti eða aðra sviksemi og byggir slík vinnsla á viðeigandi löggjöf. Kardio skal gæta þess að vinnsla og vistun persónuupplýsinga sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglur.

7.12 Viðskiptavinir Kardio eiga rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar Kardio hefur skráð um þá samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

7.13 Komi til breytinga á eignarhaldi Kardio hefur það ekki áhrif á réttindi og skyldur notanda og þjónusta Kardio mun haldast óbreytt óháð slíkum breytingum nema notanda verði tilkynnt um annað með hæfilegum fyrirvara.


7.14 Viðskiptavinur staðfestir að honum sé kunnugt um að til þess að efna skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum sé Kardio nauðsynlegt að safna og vinna með persónuupplýsingar í samræmi við lög og reglur. Nánari upplýsingar um meðferð, vinnslu persónuupplýsinga og réttindi einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga hjá Kardio má finna hér: http://www.kardio.is/personuverndarstefna.
8.          Vinnsla og meðferð greiðsluupplýsinga


8.1. Við allar kortafærslur í Kardio er hægt að bæta við kvittunum eða reikningum í gegnum app eða stjórnborð vegna vöru- og þjónustukaupa. Greiðsluupplýsingar, ásamt kvittanir og reikningar, eru geymdar í grunni Kardio í 2 ár og er aðgengilegt viðskiptavinum á þeim tíma í gegnum app, stjórnborð, vefþjónustutengingu við bókhaldskerfi og á niðurhalanlegu formi, t.d. Excel skrá.


8.2 Eftirfarandi upplýsingum er safnað í tengslum við greiðsluupplýsingar með þeim tilgangi að nýta við eftirlit á virkni, vöruþróun,  ásamt því að veita viðskiptavinum aukna þjónustu og greiningu í tengslum við útgjöld fyrirtækisins og starfsmanna:

 • Samskiptaupplýsingar

 • Notandaupplýsingar og auðkenni

 • Upplýsingar sem koma fram á kvittunum eða reikningum

 • Tæknilegar upplýsingar eins og IP tala og númer tækis

 • Atburðaskráningar

 • Lyklanir, athugsemdir, og annað sem kann að vera bætt við greiðsluupplýsingar af viðskiptavinum


8.3 Fyllsta öryggis verður gætt við vinnslu greiðslu- og persónuupplýsinga. Upplýsingar eru ekki vistaðar í appinu heldur eingöngu í grunnkerfum Kardio, og ef við á, þjónustuaðila. Öll samskipti appsins við grunnkerfi eru dulkóðuð og Kardio vinnur eftir virkum öryggis- og persónuverndarstefnum. 


8.4 Fyrirtæki og starfsmenn þeirra bera ábyrgð á að viðhengd mynd af kvittun eða reikningi sé skýr og læsileg. Sama gildir um að kvittun eða reikningur sé réttur og eigi við þá færslu sem bætt er við.


8.5 Kardio er hvorki bókhaldsþjónusta né bókhaldskerfi og uppfyllir því ekki skilyrði laga nr. 145/1994 um bókhald um varðveislu gagna. Kardio áskilur sér rétt til að hafa eftirlit með notkun til að tryggja öryggi og að farið sé að lögum. Kardio tilkynnir viðeigandi eftirlitsaðilum og lögbærum yfirvöldum um ólögmæta háttsemi.
9.          Trúnaður


9.1.   Kardio og starfsmenn Kardio eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfs síns og varðar einka- og viðskiptamálefni viðskiptavina þjónustunnar. Þessi trúnaðar- og þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Viðskiptavinur getur þó heimilað að trúnaði sé aflétt. Einnig getur dómari úrskurðað að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða hjá lögreglu eða að skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt sem varða einka- og/eða viðskiptamálefni viðskiptavina og Kardio er að jafnaði bundið trúnaði um.
10.          Vernd hugverka


10.1.   Öll réttindi og hagsmunir sem tengjast þjónustunni og þeim hugbúnaði sem hún byggir á, hverju nafni sem þau nefnast, þar á meðal en ekki takmarkað við, höfundarétt, einkaleyfarétt, vörumerkjarétt, atvinnuleyndarmál og viðskiptaþekkingu (e. know how) eru eign útgefanda og/eða þess þjónustuaðila sem útgefandi er í samstarfi við um þjónustuna.


10.2.   Korthafi öðlast engin réttindi eða hagsmuni yfir þjónustunni og/eða þeim hugbúnaði sem þjónustan byggir á með því að virkja hana og nota.


10.3.   Notkun korthafa á þjónustunni skal vera eðlileg og lögmæt, í samhengi við þjónustuna, skilmálana, reglur og upplýsingar, sem um ræðir á hverjum tíma. Korthafa er óheimilt að aðhafast nokkuð það sem getur farið gegn eða haft neikvæð áhrif á réttindi útgefanda og/eða þjónustuaðilans yfir þjónustunni. 

11.          Ábyrgð á tjóni


11.1   Kardio ber ekki ábyrgð á tjóni, beinu eða óbeinu, sem viðskiptamaður kann að verða fyrir og tengist skilmálum þessum eða viðskiptum sem framkvæmd eru á grundvelli þeirra, ef rekja má tjónið til atvika sem stafa af lagaboði, aðgerðum stjórnvalda eða óviðráðanlegum aðstæðum (force majeure), s.s, náttúruhamförum, styrjöldum, hryðjuverkum, verkföllum, lokun landamæra, rafmagnstruflunum eða rafmagnsleysi, truflunum í uppgjörskerfi, símkerfi eða öðrum boðleiðum, eða öðrum sambærilegum atvikum. Kardio ber jafnframt ekki ábyrgð á óþægindum, kostnaði, missi fjárfestingartækifæra eða öðru fjártjóni, beinu eða óbeinu sem stafar af lokun, bilun, truflun eða annarri röskun á starfsemi Kardio.
12.          Lok viðskipta


12.1   Viðskiptavini er heimilt að slíta viðskiptasambandi sínu við Kardio fyrirvaralaust nema um annað sé samið. Uppsögn skal tilkynnt með sannanlegum hætti. Kardio er heimilt að segja upp viðskiptasambandi við viðskiptavin með tveggja vikna fyrirvara, ef viðskiptasambandið varðar ekki greiðsluþjónustu í skilningi laga um greiðsluþjónustu nr. 120/2011, nema annað komi fram í sérstökum skilmálum þar að lútandi. Ef viðskiptasambandið varðar greiðsluþjónustu skv. framangreindum lögum er Kardio heimilt að segja viðskiptasambandinu upp með tveggja mánaða fyrirvara.


12.2 Ef viðskiptavinur, við uppsögn samnings eða annarrar þjónustu, skuldar Kardio gjöld eða aðrar þóknanir vegna veittrar þjónustu er Kardio heimilt að skuldfæra gjöldin af reikningi viðskiptavinar.


12.3 Kardio áskilur sér rétt til að læsa reikningum og segja upp viðskiptum við viðskiptavin verði hann uppvís að brotum gegn skilmálum þessum eða lögum og reglum. Skal viðskiptavinur látinn vita af lokuninni svo fljótt sem verða má.
13.         Breyting á skilmálum og aðrar tilkynningar


13.1 Kardio hefur heimild til að breyta ákvæðum skilmála þessara einhliða. Ef breytingar eru íþyngjandi fyrir viðskiptavin skal honum tilkynnt um þær á tryggan hátt, s.s. með skilaboðum í Kardio appinu, Kardio stjórnborði,  með tölvupósti á tilkynnt netfang viðskiptavinar eða með tilkynningu á vefsíðu Kardio, eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir gildistöku þeirra. Korthafi skal hafa aðgang að gildandi skilmálum á rafrænu formi. Aðrar breytingar er Kardio heimilt að birta með tilkynningu á heimasíðu sinni: www.kardio.is  eða í Kardio appinu eða Kardio stjórnborði. Viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytinguna tilkynni hann ekki um annað fyrir fyrirhugaðan gildisdag, sem og ef hann notar þjónustuna eftir að nýir skilmálar hafa tekið gildi.


13.2 Vilji korthafi stöðva alla notkun greiðslukorts skal hann loka því í gegnum Kardio stjórnborðið og ber hann ábyrgð á allri takmörkun á notkun kortsins skv. valkostum sem þar eru.


14.         Réttarúrræði


14.1. Viðskiptavinir geta borið ágreiningsefni undir dómstóla.


14.2 Á heimasíðu Kardio, www.kardio.is/skilabod, er hægt að senda ábendingar og kvartanir varðandi það sem snýr að starfsemi og þjónustu Kardio.


14.3 Öll mál sem rísa kunna af notkun þjónustunnar skulu, nema á annan veg sé samið, fara eftir íslenskum lögum. 


14.4 Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum eða ágreinings um túlkun þeirra má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Viðskiptavinur samþykkir auk þess að Kardio megi, kjósi hann slíkt, reka innheimtumál í því landi, sem korthafi hefur búsetu hverju sinni.
15.         Gildistími


15.1 Skilmálar þessir eru gefnir út af Kardio á íslensku og gilda frá og með 10. apríl 2024 og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi.


15.2   Þjónustusamningur Kardio og viðskiptavinar er ótímabundinnn, en uppsegjanlegur af hálfu hvors aðila með 30 daga fyrirvara, miðað við mánaðarmót, nema mælt sé fyrir um skemmri frest í skilmálum þessum.


15.3 Viðskiptamanni er bent á að lesa ákvæði þessara skilmála og annarra sem eiga við vel áður en hann samþykkir þá rafrænt og leita skýringa hjá starfsmönnum Kardio telji hann einhver ákvæði þeirra óskýr. Með því að velja: ,,Samþykkja” lýsir viðskiptamaður því yfir að hann hafi kynnt sér skilmálana, samþykkir þá, og skuldbindur sig til að nota þjónustuna í samræmi við þá að öllu leyti.


Kardio sem hluti Memento ehf.


Bolholt 4

105 Reykjavík

Tölvupóstfang: kardio@kardio.is 


Kardio

Boholt 4, 105 Reykjavik